Captiva í verðlaunaþætti

skrifað föstudagur, 29. júní, 2012
captiva_frettcaptiva_frett

í sumar hefur staðið yfir framleiðsla á nýrri þáttaröð af verðlaunaþáttunum Með okkar augum. Þættirnir vöktu mikla athygli í fyrra en í þeim spreytir fólk með þroskahömlun sig á dagskrárgerð með aðstoð fagmanna.Bílabúð Benna styrkti verkefnið með láni á Captiva, 7 manna sportjeppa, á meðan að framleiðslan stóð yfir í sumar.

Þættirnir hlutu ýmis verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal Múrbrjót Landssamtakanna Þroskahjálpar, Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands og Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins. Elín Sveinsdóttir, sem er framleiðandi og upptökustjóri þáttanna ásamt Inga R. Ingasyni, segir þættina mikilvæga og vekja athygli á málefnum fatlaðra og þroskahamlaðra og sýni að fólki með þroskahömlun séu margvíslegar leiðir færar. Dagskrárgerð er í höndum þeirra Andra Freys, Bjarna, Eiðs, Katrínar Guðrúnar, Richards, Skúla Steinars og Steinunnar Ásu. Í viðtali við í Fréttablaðinu var jafnframt haft eftir Elínu, “Þau hafa þroskast mikið með verkefninu og komu tvíefld til leiks í ár.” Þættirnir eru unnir að frumkvæði Landssamtakanna Þroskahjálpar með stuðningi frá velferðarráðuneyti og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þættirnir Með okkar augum verða á dagskrá RÚV, á miðvikudögum í sumar.