Chevrolet afhendir SOS bíl nr. 50

skrifað 29. ágú 2011
Chevrolet afhendir SOS bíl nr. 50

Hann var af stærri gerðinni, pakkinn sem börnin og SOS mæðurnar í Lapplandi fengu á dögunum. Chevrolet afhenti þá bíl nr. 50 af þeim hundrað sem bílaframleiðandinn gefur SOS Barnaþorpunum á 100 ára afmælisári Chevrolet.

Bíllinn, sem er af gerðinni Chevrolet Captiva, mun nýtast vel nyrsta SOS Barnaþorpi í heimi, í Ylitornio í Finnlandi, en á þeim slóðum getur frostið farið niður í 47 gráður og snjór þekur jörðina 183 daga á ári.
Bíllinn verður notaður fyrir börnin í barnaþorpinu og við rekstur þorpsins. Hann mun t.a.m. nýtast félagsráðgjöfum, sálfræðingum og sjálfboðaliðum Fjölskyldueflingar SOS við að heimsækja þær barnafjölskyldur sem samtökin hjálpa.

Í tilefni af hundrað ára afmæli Chevrolet ákvað bílaframleiðandinn að gefa SOS Barnaþorpunum hundrað bíla og verða þeir afhentir í fjölmörgum Evrópulöndum auk Úsbekistan, Suður Afríku, Lesótó og Ísrael. Fram til jóla verða svo fimmtíu aðrir bílar afhentir samtökunum til eignar.