Opel Astra valinn bíll ársins 2016

skrifað þriðjudagur, 1. mars, 2016
Opel Astra bíll ársins 2016Opel Astra bíll ársins 2016

Opel Astra valinn bíll ársins 2016.

Tilkynnt hefur verið að Opel Astra hafi hlotið virtustu verðlaun bílaiðnaðarins; Bíll ársins 2016 „Car of the Year 2016“.

Að valinu kemur dómnefnd skipuð 58 bílablaðamönnum frá 22 Evrópulöndum, Þeir gáfu Astra 309 stig, en í öðru og þriðja sæti komu Volvo XC90 með 294 stig og Mazda MX-5 með 202 stig.

Dr. Karl Thomas Neuman frá Opel tók við „Car of the Year 2016“ bikarnum á fréttamannafundi við upphafið á alþjóðlegu bílasýningunni í Genf sem nú er haldin í 86. skipti.

Í þessari loka atrennu bar Opel Astra sigurorð af sjö bílum sem höfðu komist í undanúrslit, en í upphafi stóð valið á milli 40 nýrra bíla af öllum stærðum og gerðum.

„Nýja Astran er fulltrúi nýrra tíma hjá Opel og þessi verðlaun eru staðfesting á því að við erum á réttri braut,“ sagði Dr. Karl Thomas Neuman. „Það er mikill heiður fyrir okkur hjá Opel að hljóta þessa viðurkenningu frá virtustu bílablaðamönnum Evrópu.“

Nýja Astran hefur fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga á sínum stutta líftíma, en hann kom á markaðinn síðastliðið haust. Um er að ræða m.a. titlana „SAFETYBEST 2015“ og Gullna stýrið „Golden Steering Wheel“. Hann landaði líka hámarkseinkunn, fimm stjörnur, í Euro NCAP árekstrarprófi nú nýlega.

„Þessi glæsilegu verðlaun eru mikið fagnaðarefni fyrir okkur,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Bílasviðs hjá Bílabúð Benna, sem er umboðsaðili Opel á Íslandi. „Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu hjá íslenskum Opel unnendum og hlökkum til að frumsýna sigurvegarann Opel Astra í vor.“

Dr. Karl Thomas Neuman frá Opel tók við „Car of the Year 2016“ bikarnum.Opel Astra Bíll ársins 2016