Opel og Bílabúð Benna styðja rafbílavæðinguna

skrifað laugardagur, 13. febrúar, 2021
byrjar 13. feb 2021
 
Opel Mokka – E hefur vakið mikla athygli og er væntanleg í apríl.Opel Mokka – E hefur vakið mikla athygli og er væntanleg í apríl.

Opel hefur gert sig gildandi í þróun rafbílatækninnar undanfarin ár og ber hröð rafbílavæðing Opel bílaflotans þess glöggt vitni.

Í tilkynningu frá Bílabúð Benna, umboðsaðila Opel á Íslandi, kemur fram að nú hafi átta tegundir af rafbílum og þrjár tegundir af tengilbílum frá Opel litið dagsins ljós. Þar segir og að markviss uppbygging innviða hérlendis, sem og metnaðarfullt framlag stjórnvalda á Íslandi, til að taka á móti rafmagnaðri framtíð, hafi vakið athygli stjórnenda Opel. Fyrirtækið hafi því ákveðið að taka höndum saman með Bílabúð Benna og standa með þeim að því að lækka verðið á Opel rafbílum á Íslandi.

„Það fjölgar jafnt og þétt í þeim gerðum bíla frá Opel sem ganga fyrir rafmagni og við finnum fyrir að Íslendingar eru spenntir fyrir þessari þróun,“ segir Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna. „Við erum komnir með nokkrar tegundir í salinn og fleiri eru á leiðinni. Nú erum við m.a. að vekja athygli á Opel Mokka - E, sem er væntanlegur til landsins í apríl, en við bendum fólki á þann möguleika að hægt er að forpanta hann strax. Þá gleður okkur að geta sagt frá því að stjórnendur Opel hafa áveðið að styðja rafbílavæðinguna hér á landi með okkur, en það gerir okkur kleift að lækka verðið á Opel rafbílum á myndarlegan hátt, eða um allt að 500 þúsund.“ segir Benedikt.