Samstarf til góðra verka

Chevrolet er 100 ára á þessu ári. Í tilefni þess hefur Bílabúð Benna, umboðsaðili Chevrolet á Íslandi, gert sérstakan samstarfssamning við SOS Barnaþorpin á Íslandi.
Samningurinn felur það í sér að með hverjum seldum Chevrolet, á afmælisárinu 2011, fylgir framlag frá Bílabúð Benna. Féð rennur beint til SOS Barnaþorpanna í Gambíu, sem er fátækt smáríki í vestanverðri Afríku.
Tvö SOS Barnaþorp eru í Gambíu og búa þar um 240 áður umkomulaus börn. Einnig reka samtökin eitt ungmennaheimili í landinu, tvo leikskóla, þrjá grunnskóla, tvo verknámsskóla, eina samfélagsmiðstöð og eina heilsugæslu. Á síðasta ári voru skjólstæðingar SOS í Gambíu yfir 10.000 talsins. SOS Barnaþorpin eru sjálfstæð barnahjálparsamtök sem veita munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili, móður, uppeldi og menntun, ásamt því að styðja barnafjölskyldur í neyð.
Á mynd: Benedikt Eyjólfsson og Margrét Beta Gunnarsdóttir hjá Bílabúð Benna og Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpa á Íslandi, handsala samstarfssamninginn.